16.12.2009 | 09:45
Jólakortaveður í Odense
Jólakortaveður er yndisleg upplifun. Í morgun vaknaði ég við jólakortaveður. Eplatréð í garðinum, grenið og öspin eru þakin snjó. Snjórinn fellur lóðrétt, það er enginn vindur. Hekkin eru þakin snjó. Að vera einn í eldhúsinu, á nærbuxunum einum fata og horfa á dýrðina vekur upp minningar. Ég man jólin 1969 um borð í Júpiter, við hífðum inn trollið klukkan sex á aðfangadagskvöld. Sumum fannst þetta óþarfi, en Finn kokk fannst þetta ábyggilega praktískt. Það hafði verið vont veður en var orðið vindlaust, en þung undiralda. Snjórinn féll lóðrétt. Klukkan hálfsjö, kom stýrimannsvaktin að leysa af, eftir að hafa borðað jólamatinn. Hjörtur Bjarna, stýrimaður, raulaði heims um ból, þegar hann vippaði sér inn á spilgrindina. Ég afhenti litla gilsinn Ásgeiri sem leysti mig af. Dagvaktin fór inn að borða jólamatinn sem Finnur kokkur og Tóti Mey annar kokkur höfðu lagt mikla vinnu í. Kallinn, Markús skipstjóri, kom niður og óskaði gleðilegra jóla.
Önnur jól man ég jafnvel, það var reyndar Þorláksmessa. Ég var á leiðinni heim til Bodö frá Lofoten, þar sem ég vann. Börnin mín þrjú biðu eftir pabba sínum. Ég hafði unnið af mér nokkra frídaga, og gat tekið fyrstu ferju á Þorláksmessumorgun. Ég keyrði minn græna Volvo 245 og það var að minnsta kosti 25 stiga frost. Í birtingu sá ég hverju ég var að keyra framhjá. Ég var að keyra í jólakorti. Ég stoppaði bílinn og fór út. Hafði keypt kaffi á termos í ferjunni og setti termosinn á húddið og drakk kaffið úr lokinu. Ég man alltaf hvað marraði undir fótunum á mér. +Iiskristallarnir á trjánum og niðurinn í ísilagðri ánni neðan undir voru dáleiðandi. Ég þurfti að taka mér tak til að komast inn í bílinn aftur og halda áfram heim.
En núna hlakka ég til. Í fyrramálið tek ég lestina til Köben. Og á morgun mun ég sofa í rúminu mínu á Hjarðarhaga. Vakna við kirkjuklukkurnar í Neskirkju. Hitta börn og barnabörn. Vera við messu í Neskirkju á aðfangadagskvöld og ganga heim í steikina sem bíður í ofninum.
Um bloggið
Jens Guðmundur Jensson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.