2.1.2009 | 21:39
Óþolandi að liggja undir tortryggni - Krafa, eða undrun ?
Eiginmaður Menntamálaráðherra sagði upp starfi sínu í Banka Landsmanna Kaupþingi í dag.
Fréttastofa sjónvarps rifjaði upp gamalt viðtal við eiginkonuna Þorgerði Katrínu Menntamálaráðherra á tröppum Ráðherrabústaðarins. Viðtalið var tekið þegar ljóst varð að Milljónaskuldum þeirra hjóna vegna hlutabréfakaupa hafði verið ráðstafað undir kennitölu einkahlutafélags af hagræðingarsjónarmiðum.
Jú einkahlutafélög eru til þess og nauðsynleg sem slík, til að verja einkahagsmuni atvinnurekanda, heimili fjölskydu þeirra og framtíðar fjárhag. Ekki bara lögleg, heldur bráðnauðsynleg.
En í siðuðum löndum, er allaf tekið mið af því að meiriháttar peningastofnanir séu atvinnu (professional) lánveitendur. Þ.e.a.s. Þær hafa að viðurværi að taka við innlánum og endurlána þau með sem minnstri áhættu á tapi. Því þurfa þau að þekkja sína lántakendur, þeirra greiðslu og ábekingsgetu. Ef skipt er um skuldara þegar veð hafa rýrnað mun slíkur professional lánveitandi tryggja veðin bak við lánið, þannig að þau verði að minnsta kosti ekki verri en þau voru í upphafi. Að lána vel menntuðu, heilsuhraustu fólki, á besta aldri, við notaleg persónuleg efni og í vel launuðum störfum. Upphæðir sem kannski spanna upp að þrennum árslaunum, til fjárfestinga í hlutabréfum í góðri trú, fellur undir professionalisma, að mínu mati. En að samþykkja breytingu á skuldara þegar veð höfðu rýrnað verulega, og það höfðu þau gert síðustu 6 mánuði fyrir breitingu á skuldara, án annarra trygginga, er ekki professional. Þegar kemur í ljós að banki sem hefur titlað sig professional hefur reynt að framkvæma slíka gerninga, og fyrir sína eigin stjórnendur, af sínum eigin stjórnendum.
Er þá óþolandi að liggja undir tortryggni?
Eru ummæli Menntamálaráðherra sögð í undrun, eða eru þau krafa um að hún sé hafin yfir tortryggni?
Það er leitt að sjá hæfileikaríkt fólk, eins og Menntamálaráðherra þrengt upp í horn af eigin græðgi og skammsýni. En henni til vorkunnar er hún ekki fyrsti kvenráðherra Sjálfstæðisflokksins sem grefur sér sömu gröf. Það þarf ekki gamla menn til að muna ólíusamráðsmálið og Sólveigu Pétursdóttir þáverandi Dómsmálaráðherra. Fannst henni ekki alveg sjálfsagt að eiginmaður hennar sæti á sakborningabekk, meðan hún sat sem fastast í sæti Dómsmálaráðherra.
Já hvort eru ummæli Menntamálaráðherra sögð í undrun eða reiði yfir slíkum óforskömmugheitum að tortryggja hana. Ef þau eru sögð í undrun, hefur þá Menntamálaráðherra það persónulega gildismat sem á að þurfa til gæta hagsmuna þjóðar? Eru blaðsíðurnar sem á er ritað hvað er mitt og hvað er þitt á milli spjaldanna hennar. Eða eru þessar mikilvægu blaðsíður ekki til staðar og þetta sagt sem krafa um að verða leist frá þeirri óþolandi aðstöðu að vera tortryggð.
Á dögunum fyrir yfirtöku Kaupþings Banka var því haldið fram að Kaupþing gæti riðið af sér storminn. Í þeirri von var kaupþingi veitt lán frá Seðlabanka upp á 100 milljarða frá gjaldeyrisvarasjóði landsmanna. Að veði lét Kaupþing Danska Bankann FIH, sem þá átti að vera fullnægjandi og jafnvel ríkulegt veð. Stuttu seinna þurfti Íslenska ríkið, 100 milljörðum fátækara, en einum dönskum banka ríkara að taka afarkostum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um neyðarlán, fyrst þróunarríkja um árabil.
Það er kannski ekki sanngjarnt að vilja meina að Menntamálaráðherra hafi komið að slíkri stórákvörðun. En að varaformaður stærsta stjórnmálaafls í landinu við síðustu kosningar og starfandi ráðherra, sem til viðbótar er eiginkona eins framkvæmdastjóra viðkomandi banka hafi ekki verið spurð álits. Því vel ég að trúa að gæti hæglega gerst í Samfylkingunni, en ekki í Sjálfstæðisflokknum.
Mér er slétt sama þó þessi fullyrðing mín flokkist sem óþolandi tortryggni.
Að það flokkist undir óþolandi tortryggni að setja í samhengi, sögusagnir sem bárust um að sami banki hafi á síðustu dögum fyrir yfirtöku yfirfært hliðstæða upphæð og hann móttók úr ríkissjóði yfir á óþekkta bankareikninga erlendis, aðallega í Luxemburg, er mér líka slétt sama um. Enda virðast fleiri deila þessari tortryggni með mér, og málið loksins orðið lögreglumál.
Menntamálaráðherra, ef þetta var sagt af undrun, væri hægt að fyrirgefa þér blaðsíðumissinn. En til þess þyrftir þú að fá eiginmann þinn til að upplýsa málið. Biðja um blaðamannfund og leggja sannleikann á borðið. Ef hann ekki veit, fáðu hann þá til að segja það og til viðbótar það sem hann veit og á erindi til almennings. Þetta er fróm ósk, þið eruð hjón, þú ert valin til trúnaðarstarfa og hann er maðurinn þinn. Eruð þið ekki í sama liði, getið þið ekki tekið hægri 7 fyrir þjóðina og skorað úrslitamarkið?
Eða eruð þið bara að vinna fyrir ykkur, hvort á sínum vettvangi, með hámörkun hagnaðar og lágmörkun áhættu að leiðarljósi? Þá óska ég ykkur til hamingju með að hafa tekið hægri 7 á Þjóðinni og sýni ykkur virðingu sem verðugum andstæðingi. Því það þarf klókt og vel menntað fólk til að snúa á þjóð sem hefur á að skipa jafn hæfileikaríkum menntamálaráðherra.
Um bloggið
Jens Guðmundur Jensson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.